Haustið 2017 skráði ég mig á gítarsmíðanámskeið hjá Gunnari Erni Sigurðssyni í Tækniskólanum.
Þetta var eitthvað sem mig hafði lengi langað og lét loksins verða af því.
Á námskeiðinu voru 9 einstaklingar og boðið var upp á að smíða Fender Telecaster, Fender Telecaster Thinline, Fender Stratocaster, Gibson SG standard og Fender Jass bass.
Fyrir valinu hjá mér varð að smíða gítar sem byggir á Gibson SG Standard en ég ákvað gera ákveðnar breytingar á hönnuninni.
Það er meiri vinna við þessa tegund gítara en Fender gítara svo gott er að hafa það í huga.
Í stuttu máli þá var þetta námskeið hrikalega skemmtilegt og mæli ég með þessu fyrir alla sem hafa áhuga á gíturum og bössum.
Hér fyrir neðan má sjá myndir og söguna af því hvernig þetta verkefni gekk.
Búkurinn var gerður í heilu lagi úr Maghony (Mahóní) en algengast er að þeir séu límdir saman úr 3 stykkjum.
Ég ákvað að hafa búkinn þykkari en á orginal SG bæði til að fá meiri tón og einnig til að bæta jafnvægi gítarsins.
Á hefðbundnum Gibson SG Standard finnst mér hálsinn of þungur miðað við búkinn og þess vegna vildi ég prófa að hafa búkinn efnismeiri og þyngri.
Byrjað var á því að strika útlínur búksins efir skapalóni og saga svo eftir þeirri merkingu í bandsög.
Hálsinn var einnig gerður úr Maghony.
Ég pantaði fingraborð úr ebony frá Rall Guitars and Tools í Þýskalandi því ég vildi fá inlays eins og er í Gibson SG gíturum og ég treysti mér ekki til að setja trapissu skornar skeljar í ebony við. Eigandinn heitir Andreas og veitti alveg fyrirtaks þjónustu.
Byrjað var á því að strika útlínur hálsins með skapalóni og sagað tæplaga það af.
Fræst var úr miðjum hálsinum fyrir svig stangar (Truss Rod) búnaði sem gerir kleift að stilla sveigjuna á hálsinum.
Þá var komið að því að festa hálsinn á búkinn sem er mjög mikilvægur hluti af smíðinni.
Það er gott að hálsinn sé vel þéttur í áður en hann er límdur og að hallinn sé réttur svo strengirnir hæðarlega séð á brúnna.
Næst var Truss Rod komið fyrir í hálsinum, fingraborðið sagað til og svo límt á hálsinn.
Svo var hálsinn formaður með þjölum og sandpappír, hausinn spónlagður og að lokum borað fyrir stilliskrúfum.
Því næst var hálsinn bandaður og böndin slípuð til þannig að þau verði öll jöfn.
Þá voru böndin rúnuð, pússuð með fínum sandpappír nokkrar umferðir, næst með sérstökum svampi og svo póleruð með leðuról í restina.
Að lokum voru svo sett punkta inlay í hliðina á fingraborðinu.
Þá var komið að því að lakka gítarinn hvítan.
Ég á annan gítar með kremuðum hvítum lit sem mér finnst mjög fallegur á honum, Sainsbury's champagne white, og fékk bílasprautara til að sprauta hann fyrir mig. Þegar liturinn var kominn á var ég ekki ánægður með hann. Þessi litur hreinlega fór ekki þessum gítar auk þess sem verkið var ekki nægilega vel gert. Ég ákvað að pússa þetta niður og gera aðra tilraun. Nú var valinn liturinn Candy White og aftur var fenginn bílasprautari í verkið, í þetta sinn Kristófer hjá SBJ í Hafnarfirði. Nú var ég fullkomnlega ánægður með litinn og verkið.
Næst var komið að því að setja allan búnað á gripinn en það var valið eftir ítarlegar pælingar og mikla leit á netinu.
Hér er listinn af því sem var valið, frá "toppi til táar":
Tákn á haus - Galdrarúnin Leiðarvísir - Lava Design
Stilliskrúfur - Klutson Revolution 3x3 Nickel með læsingum
Lok yfir Truss Rod - Málmplata frá Hellparts sem er frábær vefsíða. Kærar þakkir fyrir mig Michael.
Nut - LSR Roller Nut frá fender, mitt uppáhald
Pickguard - Full Face 5 laga frá WD Music Products
Hljóðdósir - Seymour Duncan Saturday Night Special keypt í Tónastöðinni því þar var besta verðið
Brú - Frá Schaller með roller söðlum úr nickel
Pottar - Allir 500k ohm og keyptir í Tónastöðinni
Hljóðdósarofi - 3 stöðu rofi úr nickel keyptur í Tónastöðinni
Plata undir hljóðdósarofa - Málmplata frá Hellparts því þar er þetta bara langflottast
Takkar á potta - Handsmíðaðir frá Guitar Bling úr Kennedy half myntum
Jack input - Keypt í Tónastöðinni
Tremolo - Duesenberg Radiator Tremola úr nickel
Ólafestingar - Duesenberg Mylti-Lock end Pin
Þegar allt var komið á gítarinn og búið að tengja allt rafkerfið þá var gítarinn settur upp. Truss Rod stillt, hver strengur stilltur innbyrðis, hæð og halli á hljóðdósum og bilið á milli strengja því brúin býður upp á það.
Gítarinn stennst allar væntingar bæði hvað varðar útlit og notagildi. Mjög gott að spila á hann, hljómar frábærlega og mjög gott sustain í honum. Hann er nokkuð þungur, mun þyngri en týpískur SG Standard vegna þykkari búks og þyngra hardware en þó ekki eins þungur og Gibson Les Paul. Ég er með 0.10 - 0.52 strengjaþykkt í honum núna sem ég held að passi honum best.